Ávarp forseta Íslands á málþingi félagsins
- Admin
- May 27
- 5 min read

Forseti Íslands, Halla Tómasdóttir, heiðraði félagið nýverið er hún setti málþing þess sem bar yfirskriftina 'Er farsæld tryggð í fósturmálum' í lok mars mánaðar. Það gerði hún með ávarpi þar sem hún talaði um mikilvægi fósturforeldra fyrir samfélagið og þakkaði þeim jafnframt fyrir mikilvæg störf sín. Stjórn félagsins þótti svo vænt um orð Höllu að félagið fór þess á leit við embætti forseta að fá afrit af ávarpinu til að allt félagsfólk fengi þeirra notið. Embættið varð við þeirri bón og má finna ávarpið hér að neðan.
Félagið færir Höllu innilegar þakkir fyrir að mæta á málþingið til að fræðast um aðstæður og áskoranir fósturforeldra en jafnframt fyrir einlægnina og áhugasemina sem hún sýndi.

"Kæru fósturforeldrar og aðrir gestir.
Afrískt orðatiltæki segir eitthvað á þá leið að það þurfi heilt þorp til að ala upp
barn og lýsir þannig mikilvægi alls samfélagsins í uppeldi og farsæld barna. Ég
kem ekki til ykkar í dag sem sérfræðingur í þessum málaflokki heldur sem
forseti sem lætur sig varða stöðu barna og ungmenna og tel ég fátt mikilvægara
en að huga enn betur að stöðu þeirra og framtíð.
Það er óumdeilt að það getur skipt sköpum hvers konar atlæti og í hvers
konar samfélagi barn elst upp og því miður bendir margt til þess að víða sé
pottur brotinn í þessum málum í okkar annars ágæta samfélagi. Ég hef lagt mig
fram um að hlusta á börn og ungt fólk sem og marga þá sem láta sig málefni
þeirra varða og það er ekki síst ástæða þess að ég er hér í dag. Hvort sem ég rýni
í rannsóknir eða hlusta á frásagnir fólks, þá er morgunljóst að við erum að horfa
á vaxandi vanlíðan, ofbeldi, einmanaleika og tilgangsleysi hjá börnum og
ungmennum og ekki bara hjá þeim sem einhverra hluta vegna eru ekki á beinu
brautinni. En líklega er þetta allt ýktara hjá þeim.
Sem betur fer og skiljanlega, í ljósi sorglegra staðreynda og ótímabærra
dauðsfalla, hefur umræða um farsæld barna og ungmenna líka farið vaxandi
síðustu misseri. Því ber að fagna þó betur megi ef duga skal. Farsældaráætlun
hefur litið dagsins ljós og aukin áhersla er á mikilvægi heildstæðrar nálgunar
fyrir flókin tilfelli. Hvoru tveggja er mikilvægt, en ekki nægilegt, því hvorugt
tryggir mennsku, umhyggju og kærleik. En það gerið þið, kæru fósturforeldrar. Í mínum huga eruð þið sannkallaðir riddarar kærleikans. Þið stígið inn,
oft við afar krefjandi aðstæður, og veitið börnum og ungmennum ást og
umhyggju þegar hana vantar frá foreldrum, öðrum forráðamönnum eða kerfinu
sjálfu. Án ykkar getum við ekki tryggt farsæld barna og ungmenna. Og þó að
við fögnum áætlunum og markmiðum um farsæld og uppfærslum og umbótum
á gölluðum kerfum, þá dugar það skammt ef kærleikann skortir.
Mér virðist sem að á tímum sítengingar, þegar við erum öll með heiminn í
hendi okkar og ungmenni verja meira en heilum vinnudegi á skjánum daglega,
og eru í að minnsta kosti hálfri dagvinnu á samfélagsmiðlum, hafi átt sér stað
alvarlegt tengslarof. Þau mikilvægu tengsl sem eru okkur öllum lífsnauðsynleg,
ekki síst þau félagslegu, eru ekki jafn sterk og þau voru, né nægilega sterk til að
við séum heilbrigð á líkama og sál. Þessi staða er mögulega enn erfiðari hjá
börnum sem fyrir einhverjar sakir fá ekki að upplifa þá ást og það öryggi sem
mundi auðvelda þeim að tengjast öðru fólki og þroska heilbrigð félagsleg tengsl
og önnur þau tengsl sem leggja grunn að góðu lífi. Við vitum að börn sem alast
upp við gott atlæti eru opnari fyrir nýjum upplýsingum, eru óhræddari við að
sýna forvitni, við að læra og vaxa. Við vitum líka að ást og öryggi í æsku er
forsenda þess að við lærum að elska, okkur sjálf, sem og aðra og líka að mæta
því mótlæti sem lífið færir hverju og einu okkar.
Þið, kæru fósturforeldrar, axlið mikla ábyrgð og leggið ómetanlegan
grunn sem getur skilað samfélagi okkar fleiri heilbrigðum og hamingjusömum
einstaklingum. Það er því til mikils að vinna að þið fáið þann stuðning sem þið
þurfið á að halda til að hjálpa fleiri börnum að hljóta ákjósanlegt upphaf í þessu
vandmeðfarna lífi.
Ég fagna því að hér sé hópur fólks sem býður fram hjörtu sín, hug og
hendur til að taka þátt í því að koma börnum á legg, að hlúa að þeim, veita
öryggi og skjól og taka þátt í að skapa barni í erfiðum aðstæðum betri
möguleika á bjartri framtíð. Ég er ykkur einlæglega þakklát.
Ég veit að það er margt sem enn þarf að laga og vil hvetja ykkur til dáða í
að beita ykkur fyrir bættu umhverfi fyrir ykkur, því það mun óbeint skila sér í
aukinni farsæld barna. Ég óska ykkur til hamingju með mikilvæga áfanga sem
þið hafið náð á liðnu ári. Þið hafið fundið ykkur fastan samastað í
mannréttindahúsi Öryrkjabandalags Íslands, tryggt fjármagn til að veita betri
stuðning til fósturfjölskyldna og aukið stuðning og námskeiðahald. Þetta
málþing er líka mikilvægt til að ræða bæði það sem vel er gert og líka hitt sem
enn þarf að bæta. Í öllum flóknum vanda hef ég komist að því að fátt gott gerist
án samtals og samstarfs. Það er ljóst að víða má samræma vinnubrögð og
uppfæra þau og tel ég líklegt að lykillinn að því að gera það felist í virku samtali
og samstarfi ykkar og „kerfisins“.
Ég hef líka heyrt að það skorti fósturfjölskyldur og það er verkefni út af
fyrir sig að fjölga þeim. Það er líka mikilvægt að tryggja að þeir riddarar
kærleikans sem sinna þessu mikilvæga hlutverki í farsæld barna vilji halda
áfram að gera það og farnist vel í því hlutverki.
Ég vil að lokum ítreka þakkir mínar til ykkar sem leggið svo margt af
mörkum til að reyna að tryggja farsæld fleiri barna. Ég hvet ykkur til að vinna
saman og með stjórnvöldum og börnum og ungu fólki að því að bæta það sem
laskað er. En mest af öllu hvet ég ykkur til að vera áfram riddarar kærleikans.
Ungt fólk í ólíkum aðstæðum og á ólíkum aldri kemur gjarnan til mín og biður
um faðmlag eða knús. Þau þrá tengsl og hlýju og það er líklega ekkert sem við
getum gefið þeim sem er mikilvægara en það. Takk fyrir að taka utan um börn
og ungmenni sem þurfa á því að halda, ekki síst þau sem búa við flókinn og
fjölþættan vanda. Munið líka að taka utan um um ykkur sjálf og hvert annað –
við höfum lítið að gefa ef við erum ekki í lagi sjálf. Ég óska ykkur og öllum
börnum og ungmennum þess eins að fá að búa í fordómalausu og kærleiksríku
samfélagi og trúi því einlæglega að saman getum við látið þá ósk rætast."
Comments