top of page

Ný reglugerð varðandi kjaramál fósturforeldra

Í júní 2011 tóku gildi breytingar á barnaverndarlögum nr. 80/2002. Ein af þeim breytingum sem þar voru gerðar fjallaði um samráð Barnaverndarstofu við Félag fósturforeldra um gerð tillagna að reglugerð um greiðslur til fósturforeldra.

Lögfræðingur Barnaverndarstofu boðaði til fundar vegna þessarar samvinnu síðla vetrar 2012 og ákvað stjórn FFF að fela Steinunni Kristínu Pétursdóttur að vinna þetta verkefni. Ásamt FFF og BVS taka Samband Íslenskra Sveitarfélaga og félagþjónustan í Reykjavík þátt í vinnunni, þó þeirra sé ekki getið í lögunum. Hópurinn hefur hist í fjögur skipti og voru drög að reglugerð send út til umsagnar í lok sumars. Fljótlega er gert ráð fyrir að hópurinn hittist aftur og fari yfir þær umsagnir sem borist hafa, og að því loknu verða drögin send Velferðarráðherra sem hefur lokaorðið um það hvernig reglugerðin mun líta út.

Það sem FFF hefur lagt mesta áherslu á er að gera sterkari greinarmun á framfærslueyri, fósturlaunum og öðrum kostnaði í fóstursamningum.

Við óskuðum eftir því að sú upphæð sem ætluð er til framfærslu barns verði hækkuð frá því sem nú er. Í núgildandi reglugerð er gert ráð fyrir tvöföldu meðlagi en krafa okkar er að upphæðin verði sem nemur þreföldu meðlagi.

Við lögðum til að flokka tímabundnu fóstrin í styrkleikaflokka og greiða fósturlaun í samræmi við það, en eftir töluverðar umræður var fallist á að skipta frekar í þrjá flokka eftir aldri barnanna með svipuðum hætti og gert er á hinum Norðurlöndunum. Hugmyndin er að sett verði gólf á launahlutann þannig að launin verði aldrei lægri en þrefalt meðlag, og að undir venjulegum kringumstæðum verði þau ekki hærri en tífalt meðlag. Þetta kemur að sjálfsögðu til viðbótar við framfærslueyrinn, þar sem um tvenna ólíka hluti er að ræða.

Í drögunum er einnig gert ráð fyrir greiðslur vasapeninga og tómstunda falli undir annan kostnað, og þarf að tilgreina hann sérstaklega í fóstursamningi. Dagvistunargjöld barna í tímabundnu fóstri gætu fallið undir þennan lið, og er ágætt að hafa það í huga. Við óskuðum eftir að gert yrði ráð fyrir greiðslum vegna umfangsmikils aksturs í þágu fóstursins, sem og greiðslu launa í eðlilegan tíma ef barnaverndarnefnd riftir fóstursamningi.

Einnig gerðum við alvarlegar athugasemdir við það úrræðaleysi sem við búum við í tryggingamálum. Eins og fram hefur komið er einungis búið að gera drög að reglugerðinni, og því algjörlega ótímabært að segja til um hvernig málin fara. Það er á valdi ráðherra að samþykkja eða breyta þeim tillögum sem honum verða sendar, en við vonum að sjálfsögðu að þau mál sem við höfum haft á oddinum muni ná fram að ganga. Hvað sem öðru líður þá er það mikið gleðiefni að félagið skuli nú í fyrsta skipti hafa aðkomu að þeim málum sem varða okkur svo mjög, og að raddir fósturforeldra skuli með þessum hætti ná eyrum ráðherra.

Steinunn K. Pétursdóttir

Nýlegar fréttir
bottom of page