Vel heppnuð útilega á Arnarstapa í sumar
Útilega félagsins er síðustu helgina í júní ár hvert og færist útilegan á milli landshluta. Sumarið 2012 var á Vesturlandi og verður því farið á Norðurland sumarið 2013. Fyrir utan að vera í góðum félagskap í fallegu umhverfi, er megintilgangur útilegu félagsins að fullorðnir og börn kynnist. Með því eigum við auðveldar með að miðla reynslu og styðja hvert annað og ekki síst virðast börnin fá mikið út úr því að hitta önnur fósturbörn.
“Á handahlaupum eftir vinnu á föstudegi var öllu útilegudótinu pakkað í bílinn, dætrunum troðið síðast í bílinn og stefnan tekin á Arnarstapa. Komum um kvöldið á leiðarenda í ótrúlega fallegu veðri en hávaða roki. Þá var bara að finna hinar fósturfjölskyldurnar og tjalda við hliðina á þeim. Börnin voru því send úr bílnum að spyrja fólk fyrir framan öll tjöld hvort þau væru í Félagi fósturforeldra ! Að endingu fundum við hópinn og þá var gott að fá aðstoð við að tjalda í rokinu. Útilegan var frábær í alla staði. Yndislegt fyrir okkur fullorðna fólkið að kynnast og krakkarnir alsælir úti að leika alla helgina. Farið var í gönguferð yfir að Hellnum, leikið í fjörunni, farið í fótbolta og spjallað í sólinni. Mikið hlökkum við til að fara í næstu útilegu en ég held það sé ráð að félagið fjárfesti í fána til að auðvelda okkur að finna hvort annað. “
M.S.