Fræðsludagur 2013
Guðbrandur Árni Ísberg og Sæunn Kjartansdóttir hafa sérsniðið námskeið fyrir Félag fósturforeldra þar sem Sæunn ætlar að einbeita sér að fyrstu árum barnanna og Guðbrandur að Grunnskólaaldrinum.
Fjallað verður um hvað er mikilvægast að börn fái frá foreldrum sínum fyrsta árið og hvaða áhrif það hefur á börnin þegar eitthvað fer úrskeiðis. Á fyrstu árunum byggist grunnurinn að framtíðarpersónuleika barnsins og því mikilvægt að skilja hvað gerðist á þessum tíma. Síðan verður fjallað um börn sem hafa alist upp við illa meðferð og hvernig það kemur fram í hegðun þeirra. Hér verður að hluta upprifjun frá í fyrra en einnig ýmislegt nýtt. Þar næst verður farið yfir hvernig fósturforeldrar geta tekist sem best á við ýmsa hegðun. Að lokum verður umræður og tími fyrir spurningar með þeim Sæunni og Guðbrandi.
Guðbrandur Árni var einnig með námskeið á Fræðsludeg FFF haustið 2012. Heppnaðist það námskeið afskaplega vel og sköpuðust líflegar umræður á eftir sem gögnuðust okkur fósturforeldrum mjög vel.
Námskeiðið verður haldið á sal Barnverndarstofu í Borgartúni 21, laugardaginn 26.október og hefst það stundvíslega kl. 13. Um morguninn verður aðalfundur félagsins og verður boðið uppá léttan hádegisverð í beinu framhaldi af aðalfundinum.
Mörg ykkar þekkja bækur sálfræðinganna Guðbrands Árna og Sæunnar Kjartansdóttur. Sæunn hefur skrifað bókina “Árin sem enginn man” og Guðbrandur Árni bókina “ Í nándinni – innlifun og umhyggja”.
Félagið hefur óskað eftir að þau komi með bækurnar á námskeiðið og bjóði félagsmönnum þær til sölu á hagstæðu verði.