Guðbrandur Árni Ísberg heldur námskeið fyrir alla fósturforeldra
“Börn sem þurfa á fóstri að halda koma oftast frá heimilum þar sem ýmist er um vanrækslu eða ofbeldi að ræða. Slík meðferð á börnum hefur áhrif á bæði heilaþroska þeirra og heilastarfsemi og þetta sjáum við og finnum glögglega sem vinnum með þessum börnum. Tilfinningar og hegðun þessara barna má skilja að mörgu leyti út frá nokkrum öflugum hegðunarkerfum í heila. Skilningur á þessum kerfum hjálpar þeim sem vinna með börnin til að skilja þau betur, verða umburðarlyndari gagnvart þeim og hjálpa þeim þar með enn betur að dafna. Á námskeiðinu verður, á mannamáli, farið í gegnum þessi kerfi og hvaða aðferðir gagnast vel til að sinna börnum í fóstri sem best”.
Guðbrandur Árni Ísberg hefur starfað sem sálfræðingur í mörg ár bæði hér heima og í Danmörku. Hann hefur unnið mikið sem börn sem alast upp við ofbeldi og vanrækslu, foreldra þeirra og aðra sem koma að málum þeirra. Guðbrandur hefur haldið fjölda námskeiða í gegnum árin um m.a. eðlilegan og óeðlilegan heilaþroska barna og reiðistjórnunarvanda. Í byrjun næsta árs kemur út bókin “Í nándinni – innlifun og umhyggja” þar sem fjallað er um gildi nærandi tengsla fyrir vellíðan á öllum aldri ásamt því hvaða áhrif ofbeldi og vanræksla hafa á okkur.
Námskeiðið verður haldið í húsakynnum Barnaverndarstofu í beinu framhaldi af aðalfundi félagsins laugardaginn 3. nóvember. Áætluð námskeiðslok ca. kl. 17.