top of page

Stefnumótun í fullum gangi


Stefnumótun - hvaða þörfum viljum við að mæta?

Laugardaginn 19. janúar hittist nýskipuð stjórn undir dyggri leiðsögn Maríönnu frá ráðgjafafyrirtækinu Manino.is til að vinna markvisst að stefnumótun fyrir félagið okkar. Þetta var langur og strangur dagur en ákaflega spennandi og skemmtileg vinna sem við tókumst á við. Eins og sönnum Íslendingum sæmir vildum við að sjálfsögðu stökkva beint út í lausnir og verkefni en Maríanna stoppaði okkur því það er víst farsælla að vita hver vandamálin eru og hvað það er sem virkilega knýr okkur áfram áður en hægt er að finna lausnir. Við fórum verulega faglega ofan í hvað það er sem knýr okkur sem fósturforeldra, hvað það er sem knýr okkur til að vera í félagi fósturforeldra og hvað það er sem knýr okkur til að gefa af tíma okkar til að sitja í stjórn í sjálfboðavinnu. Þó að við stjórnarfólk séum afar ólík og með ólíkar ástæður fyrir að hafa farið út í að gerast fósturforeldrar þá komumst við að því að við höfum öll sama kjarnaviðhorfið þegar kemur að setu okkar í stjórninni. Við viljum bæta líf fósturfjölskyldna á Íslandi. Við komumst að því að þessi mál eru mjög nálægt tilfinningum okkar eins og gefur að skilja, talsvert nær en málefni fólks í viðskiptaheiminum sem Maríanna hefur verið að hjálpa. Því hjá okkur erum við að vinna með börn en ekki tölur eða hagnað. Við komumst að því að við höfum öll brennandi ástríðu fyrir að bæta líf barna sem þurfa fósturfjölskyldur, hvort sem er varanlegar eða til styttri tíma. Nú ætlum við að melta þær hugmyndir sem við festum okkur á blað í smá tíma áður en við hittum Maríönnu aftur í lok mánaðar og skiptum niður verkefnum. Nú þegar eru hjólin farin að snúast og verið að taka heimasíðuna okkar í gegn auk þess sem dagskrá fyrir kaffispjallið er komin upp sjá hér. Við hlökkum svo sannarlega til að halda áfram með hugmyndirnar og framtíðarsýnina sem við erum að festa á blað þessa dagana. Lífið er spennandi og spennandi tímar framundan hjá félaginu okkar. Með bestu kveðju frá stjórninni sem er súper spennt þessa dagana.

Nýlegar fréttir
bottom of page