top of page

Upplýsingar fyrir skattframtal 2019


Stjórn Félags Fósturforeldra hefur fengið ábendingar um að gott væri að minna fósturforeldra á hvernig skuli færa allar greiðslur og kostnað er varðar fósturbörnin inn á skattframtalið.

Hér á eftir koma þær leiðbeiningar sem skattstjóri hefur sett fram fyrir fósturforeldra. Við teljum þó brýnt að minna á að telja allan kostnað á móti fósturlaunum því sá kostnaður getur verið verulegur. Til kostnaðar má t.d. telja lyf, læknisferðir, bensínkostnað í öllu skutli, tómstundir, ferðalög með barnið (innan lands og utan), fatnað, hluta af matarinnkaupum fjölskyldunnar, allt er varðarsérstaka daga hjá fósturbarninu eins og t.d. fermingarveisla, afmælisveislur, námskeiðsgjöld, bílprófskostnaður og fleira.

Einnig getur verið gott að leita til góðs endurskoðanda með þessi mál ef þau eru að flækjast fyrir fólki.

má finna skilgreiningu á hvað er fósturlaun, hvað er framfærslulífeyrir og hvaða hugtök eiga við í hverju tilfelli fyrir sig. Á vef ríkisskattstjóra segir:

Vistun í heimahúsi:

Sérstakar reglur gilda um tekjur fyrir vistun í heimahúsum og frádrátt frá þeim. Reglur þessar eru ákvarðaðar árlega í skattmati ríkisskattstjóra. Hér er aðallega átt við vistun hjá dagforeldrum, sumardvöl barna í sveit, fósturbörn, stuðningsfjölskyldur fatlaðra barna og vistun aldraðra eða öryrkja.

Í sumum þessum tilvikum er um að ræða atvinnurekstur og ber þá að gera grein fyrir starfseminni á þann hátt en í öðrum tilvikum er svo ekki. Þá er að hluta gerð sú undantekning að í stað sannanlegs kostnaðar er heimilt að færa matsfjárhæðir til frádráttar, samkvæmt skattmati hverju sinni.

Fósturbörn

Tekjur af reglubundinni starfsemi sem felst í að taka börn í fóstur frá barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum skal gera upp sem rekstrartekjur. Til frádráttar má færa sannanlegan kostnað af starfseminni.

Ef ekki er um rekstur að ræða ber að færa greiðslur vegna fósturbarna til tekna og heimilt er að færa til frádráttar sannanlegan kostnað sem beint tengist tekjunum. Í stað sannanlegs kostnaðar má í þessu tilviki færa frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris vegna hvers barns, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Fjárhæð barnalífeyris kemur fram í skattmati ríkisskattstjóra.

Hið árlega skattmat ríkisskattstjóra fyrir árið 2019 hefur þetta um málefni fósturbarna að segja:

Frádráttur vegna fósturs barna

Ef framteljandi hefur fengið greiðslur vegna barna sem sett eru í fóstur hjá honum af barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum ber að tekjufæra þær greiðslur. Færa má til frádráttar sannanlegan kostnað sem beint tengist þessum greiðslum. Einnig má færa, í stað sannanlegs kostnaðar, frádrátt sem svarar til tvöfalds barnalífeyris vegna hvers barns, en þó aldrei hærri fjárhæð en greiðslunum nemur. Sé tekið fram í samningi milli sveitarfélags og framteljanda að greiðslur vegna fósturbarns miðist við að framfærslukostnaður barnsins teljist vera hærri en nemur tvöföldum barnalífeyri er heimilt að færa umsamda fjárhæð vegna framfærslu til frádráttar í stað sannanlegs kostnaðar. Þessar reglur eiga þó ekki við þegar um er að ræða reglubundna starfsemi sem felst í að taka börn í fóstur frá barnaverndarnefnd eða meðferðarstofnunum. Þá skal telja greiðslur til tekna sem rekstrartekjur og rekstrarkostnað til frádráttar eftir almennum reglum þar um.

Gangi ykkur vel.

Nýlegar fréttir
bottom of page