Skýrsla stjórnar 2019
Flutt á aðalfundi 9. nóvember 2019
Fráfarandi stjórn á aðalfundi Félags fósturforeldra árið 2019, þann 9. nóvember, var kosin á aðalfundi 3. nóvember 2018. María Sólbergsdóttir, Anna Þórey Arnardóttir, Hildur Björk Hörpudóttir, Anna Steinunn Jónasdóttir og Guðlaugur Kristmundsson voru kosin í stjórn félagsins. Guðlaugur starfaði sem formaður og María sem gjaldkeri. Edda Gunnarsdóttir, Guðbergur (Beggi) Birkisson, Sigríður Hildur Sigmarsdóttir og Soffía Ellertsdóttir voru kjörin í varastjórn. Skoðunarmaður reikninga var kosin Matthildur Jóhannsdóttir. Eru þeim öllum þakkað starf í þágu félagsins á síðasta starfsári.
Fræðsludagur síðasta árs fór fram samhliða aðalfundi samkvæmt venju. Fræðsludagurinn var óvenju innihaldsmikill þar sem við fengum þrjú erindi. Fyrsta erindi var um kynvitund frá fræðslustýru Samtakanna 78. Þá komu Halldór og Margrét með kynningu á KEEP úrræðinu og Inga Wessmann hjá Litlu kvíðamiðstöðinni fór yfir tilfinningar og tilfinningastjórn. Var fráfarandi stjórn sammála um að fræðsludagurinn hafi verið vel sóttur og þar hafi skapast góðar umræður.
Félagsmenn eru 158 og félagsgjald ársins var 3.500 krónur, óbreytt frá síðasta ári. Stjórnin hélt 8 stjórnarfundi, einn stefnumótunardag og borðaði saman eitt eftir stjórnarfund heima hjá Maríu í sumar. Það var frábært fyrir stjórnina að gera eitthvað annað en að sitja á fundum og fara yfir málefni.
Kaffispjall í Reykjavík og á Akureyri Kaffispjallfundir gengu vel veturinn 2018-2019, þeir voru haldnir á Hótel Íslandi í Reykjavík þar sem við fengum ágæta aðstöðu og félagsmenn gátu rætt saman í næði en einnig keypt sér veitingar. Fundirnir voru haldnir á Icelandair hótel Akureyri samhliða. Kaffispjallfundirnir hafa því miður ekki farið af stað í vetur.
Samstarfssamningur við Barnaverndarstofu Núna í október var endurnýjaður samstarfsamningur við Barnaverndarstofu og hann var núna gerður til tveggja ára. Samningurinn felur í sér að félagið fær styrk til þess að sækja ráðstefnurnar NOFCA og IFCO en einnig til þess að halda úti fræðslu, t.d. með árlegum fræðsludegi.
Almannatengsl og samskipti við félagsmenn Stjórn hefur staðið sig illa við að halda uppi merkjum félagsins, hvort sem það hefur verið á heimasíðu, samfélagsmiðlum, fjöldapósti eða skrifum í blöð. Því miður féll sá bolti til jarðar og enginn virtist geta tekið hann upp. Það verður þó einungis skrifað á verkstjórn formanns að hafa ekki komið þessum málum í sterkari og traustari farveg. Það verður að tryggja betur næst.
Alþjóðlegt starf - NOFCA Anna Þórey og Soffía sóttu í maí ráðstefnu NOFCA sem haldin var í Bergin að þessu sinni. Það var mál þeirra að mikilvægt er fyrir félagið að halda tengslum við norræn systurfélög okkar, þó að á þessa ráðstefnu sæki einnig barnaverndarstarfsmenn.
Alþjóðastarfið er greinilega mikilvægt og það er nauðsynlegt að félagið haldi þessum tengslum sem myndast en stjórn verður að halda betur utan um þessi tengsl og þátttakendur í slíkum ráðstefnum þyrftu að miðla reynslu og upplifun sinni þegar heim verður komið. Það verður verkefni nýrrar stjórnar að vinna að því.
Breytingar í þágu barna – þátttaka í stefnumótun og samvinna við yfirvöld Í september á þessu ári var haldin ráðstefna undir yfirskriftinni “Breytingar í þágu barna” þar sem Soffía og Guðlaugur sóttu. Þessi ráðstefna var nokkurs konar hluti af því ferli sem hófst þegar unnið var að nýrri framkvæmdaáætlun í barnavernd var samþykkt. En slík framkvæmdaáætlun þarf að vinna í kjölfar hverrar sveitarstjórnarkosninga. Áður en til nýrrar framkvæmdaáætlurnar hafði farið fram ráðstefna á Hilton sem var sótt af rúmlega 500 manns sem bar yfirskriftina SIMBI eða snemmtæk íhlutun barna á Íslandi.
Stýrihópur stjórnarráðsins í málefnum barna var stofnaður en í honum sitja fulltrúar frá félags- og barnamálaráðherra, mennta- og menningarmálaráðherra, heilbrigðisráðherra, dómsmálaráðherra, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra og forsætisráðherra. Stýrihópurinn kallaði til sín ráðgjafahóp og óskaði meðal annars eftir fulltrúum frá Félagi fósturforeldra. Stýrihópurinn fundaði þrisvar sinnum ráðgjafahópnum. Í kjölfar þess var kosið í þingmannanefnd í málefnum barna og þá voru settir á fót 8 millhópar en þeir hópar köfuðu dýpra ofan í mismunandi málefni. Þau málefni voru Velferð og virkni fólks á aldrinum 18-24 ára, barnaverndalög, börn í sérstaklega viðkvæmri stöðu, gagnagrunnur og upplýsingamál, forvarnir og fyrirbyggjandi aðferðir, samtal þjónustukerfa, skipulag og skilvirkni úrræða og að lokum tækni og jöfnun þjónustu um land allt.
Stjórn félagsins sendi fulltrúa á fjóra af þessum átta millihópum en hóparnir funduðu misjafnlega oft og voru mjög ólíkir að stærð. Þessir fjórir millihópar skiluðu af sér á ráðstefnu sumarið 2019 sem var undanfari ráðstefnunnar í Hörpu. Á fundinum í Hörpu var rætt um innleiðingar og farið yfir forgangsmálefni úr þeirri vinnu sem núna hefur staðið yfir í 18 mánuði. Það var mikill hugur í fólki og þeir sem hafa starfað lengi í greininni bera miklar væntingar til þess að núna sé loks að vænta einhverra breytinga sem komi til með að skila góðu gagni, betri úrræðum, snemmtækari, betra samtal á milli kerfa en innleiðingin og breytingin gæti orðið átakamikil.
Stjórn félagsins sýnist það gífurlega mikilvægt að stjórnvöldum sé haldið vel við efnið varðandi fósturmál. Bæði til þess að það sé ekki freistnivandi yfirvalda að færa fé og athygli frá málaflokknum en líka til þess að knýja fram þær breytingar sem nauðsynlegar eru félaginu, félagsmönnum og ekki síst fósturbörnum.
Sem hluta af þessu ferli óskaði stjórn eftir fundi með Félags- og barnamálaráðherra sem var haldinn 10. apríl 2019. Fyrir hönd stjórnar mættu Guðlaugur, Hildur Björk, Anna Steinunn og María. Fundurinn lengdist nokkuð og við upplifðum mikinn áhuga og þekkingu hjá ráðherra á fósturmálefnum, en okkur tókst einnig að koma betur að þeim málum sem hafa ekki fengið athygli og það kom ráðherra á óvart að heyra slíkt, en hann hafði einmitt heyrt af málum á hinn veginn. Við afhentum ráðherra minnisblað á þessum fundi og fylgdum eftir með tölvupósti vikunni eftir. Ráðherra gat því miður ekki tekið þátt í þessum fundi, en hefur óskað eftir því að við munum reyna á sameiginlegan fund með félagsmönnum.
Alþingi Eins og áður óskaði Nefndarsvið Alþingis eftir umsögn um frumvörp eða þingsályktunartillögur sem að snúa að málefnum barna en við sendum engar umsagnir eða athugasemdir inn þennan starfsvetur.
Stefnumótun stjórnar Á sínum fyrsta fundi í nóvember 2018 stjórn félagsins að leita aðstoðar aðila við stefnumótun félagsins og halda stefnumótunarfund 19. janúar 2019. Fyrri stjórn hafði unnið að framtíðarsýn í janúar 2017 á hefðbundnum stjórnarfundi og þar kom fram greinilega mikill vilji og áhugi til þess að taka félagið lengra og varða leiðina að framtíðarsýn betur. Við leituðum tilboða og hugmynda hjá ýmsum ráðgjöfum en enduðum á að taka tilboði Maríönnu Magnúsdóttur hjá Manino sem vann með okkur á heilum laugardegi að því að setja okkur framtíðarsýn og varða leiðina þangað með tækjum, tólum og aðferðum. Stjórn mætti sjálf á þennan stefnumótunardag og leitaði til nokkurra fyrrverandi stjórnarmanna samkvæmt ráðum Maríönnu við samsetningu hópsins. Það þótti mikilvægt að hópurinn væri sá sem hefði bæði þekkinguna á mismunandi fóstri en einnig drifkraftinn til þess að framkvæma þá áætlun sem kæmi út úr henni.
Í kjölfar stefnumótunar var stjórnin full tilhlökkunar og full sjálfstrausts til framkvæmda en því miður varð lítið úr framkvæmd. Það er mikilvægt fyrir nýja stjórn að temja sér strax öguð vinnubrögð, skipuleggja vinnuna vel, ætla sér ekki of mikið og halda forgangsröðun í lagi. Framtíðarsýnin sem stjórnin bjó til er gífurlega mikilvæg fyrir íslenskt samfélag, við trúum því að með því að treysta félagið og efla tengslin okkar á milli náum við að hafa jákvæð áhrif á samfélagið okkar og ná þannig að bæta líf fósturfjölskyldna sem að mati stjórnar á að vera aðalmarkmið félagsins.
Fyrir hönd stjórnar 2018-2019
Guðlaugur Kristmundsson, formaður