top of page

Adda Steina Haraldsdóttir nýr framkvæmdastjóri Félags fóstuforeldra

Félag fósturforeldra hefur gengið frá ráðningu Öddu Steinu Haraldsdóttur sem fyrsta framkvæmdastjóra Félags fósturforeldra.


Adda Steina er þroskaþjálfi að mennt með meistaragráðu í hagnýtri menningarmiðlun frá Háskóla Íslands. Adda Steina starfaði áður m.a. sem tómstunda- og forvarnarfulltrúi Fljótsdalshéraðs og yfirþroskaþjálfi í frítímaþjónustu í Reykjavík. Hún hefur nú þegar hafið störf hjá félaginu og segir það leggjast afskaplega vel í sig: „Það er mér mikill heiður að vera ráðin í þetta mikilvæga starf fyrir félagið og hlakka ég mikið til að kynnast samfélagi fósturforeldra, starfinu og málaflokknum enn betur í náinni framtíð. Ég hyggst leggja mig alla fram við að sinna starfinu af heilindum, ástríðu og trúmennsku og heiti því að bera hag fósturfjölskyldna ávallt fyrir brjósti. 


Guðlaugur Kristmundsson, formaður Félags fósturforeldra, segist hlakka til samstarfsins við Öddu Steinu en núna séu að raungerast áætlanir félagsins sem markaðir voru fyrir nokkrum árum: „Heimsfaraldurinn seinkaði áætlunum okkar en mikilvægi félagsins hefur sjaldan verið meiri en nú, þegar hið opinbera er að umbylta barnaverndarkerfinu. Þar skiptir máli að rödd félagsmanna og reynsla okkar í fósturmálum komist til skila. Adda Steina kemur í hópinn með eldmóð og hæfileika til þess að sinna því hlutverki. Þá er félagsstarfið algjört hryggjarstykki í starfsemi félagsins og þar munum við treysta á reynslu Öddu Steinu í að leggja hönd á plóg í þeim efnum.”


Í Félagi fósturforeldra eru tæplega 400 félagsmenn og fór aðalfundur félagsins fram í gær, 8. apríl. Þar var ný stjórn kjörin fyrir félagið og Guðlaugur Kristmundsson endurkjörinn formaður félagsins á fyrsta fundi stjórnar. Ásamt honum sitja í stjórn Anna Margrét Hrólfsdóttir, Hafsteinn Esekíel Hafsteinsson, Hildur Björk Hörpudóttir og Fríður Pétursdóttir.


Varamenn í stjórn eru Jana Birta Björnsdóttir, Elsa Dögg Benjamínsdóttir og Tinna Hrund Hlynsdóttir. Aðalfundurinn var fjölmennur og þar var lýst yfir ánægju með því að félagsaðild er nú orðin verðmætari en áður með tilkomu framkvæmdastjóra.


Félagsmenn njóta meðal annars ráðgjafar við fósturmál sín og samskipti við barnaverndarþjónusta, aðgengi að lögfræðingi og félagið heldur úti fræðslu og viðburðastarfi. Framundan er fóstufjölskylduhelgi í Vatnaskógi með fjölbreyttri dagskrá og málþing fósturforeldra með haustinu.


Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page