Dásamleg samvera í Vatnaskógi
Félag fósturforeldra stóð í þriðja sinn fyrir fjölskylduhelgi í Vatnaskógi 25.-27. október og að þessu sinni tóku 16 frábærar fjölskyldur þátt, 48 börn og 28 fullorðin.
Veðurspáin hótaði því að setja alla helgina úr skorðum en að endingu kom veðrið ekki að sök því starfsfólk Vatnaskógar var boðið og búið að tryggja að næg skemmtun væri í boði öllum stundum og fyrir alla aldurshópa. Þannig var t.d. farið í hoppukastala og heitapotta í stað vasaljósagöngu úti í rok og rigningu á föstudegi.
Laugardagur tók svo við með stanslausri skemmtidagskrá og góðum gestum. Fyrir hádegi kíkti leikhópurinn Vinir í heimsókn með leiksýningu fyrir börnin og eftir hádegi mættu hjónin Hulda og Þorsteinn og fluttu erindi um þriðju vaktina fyrir þau fullorðnu á meðan að starfsfólk Vatnaskógs hélt úti dagskrá fyrir börnin. Að löngum degi liðnum var svo haldið ógleymanlegt fjölskylduball þar sem ungir sem aldnir stigu trylltan dans í diskóljósum. Þegar rafhlöðurnar voru við það að klárast hjá fólki mundi starfsfólk Vatnaskógs að enn ætti eftir að bæta upp vasaljósagöngu frá fyrra kvöldi og dróg fjölskyldurnar aftur á lappir og út í skemmtilega kvölddagskrá.
Helginni lauk svo með uppblásnum hoppuköstulum Vatnaskógs og blöðrudýrum Blaðrarans.
Félagið er gríðarlega þakklátt Vatnaskógi og starfsfólki staðarins fyrir að standa að þessari helgi með okkur og fyrir hlýjar og skemmtilegar mótttökur. Við þökkum öllum sem mættu og bíðum spennt eftir að fara aftur á næsta ári!
Comments