top of page

Fjör á vinnudegi stjórnar og opnu húsi félagsins!




Fimmtudaginn 24. október var viðburðarríkur dagur hjá félaginu.


Stjórn félagsins kom öll saman í fyrsta sinn í nýrri aðstöðu í Mannréttindahúsinu en þangað var hún samankomin til að eiga öflugan og skemmtilegan dag saman. Dagurinn hófst á því að kynnast aðstöðunni og sækja síðan fyrirlestur ásamt öðrum samtökum í Mannréttindahúsinu hjá Hrafnhildi Gunnarsdóttur heimildargerðarkonu um aðkomu hennar að gerð bíómyndarinnar "Dagurinn sem Ísland stöðvaðist" um kvennafrídaginn árið 1975. Þar voru meðal annars líflegar umræður um hvernig þau sem brenna fyrir mannréttindum fólks geta farið að til að ná settum markmiðum og gaf Hrafnhildur viðstöddum ráð sem stjórn félagsins tók svo með sér inn í daginn "Að taka baráttuna stundum áfram á húmornum".






Stjórn rýndi síðan betur í stefnumótunarvinnu frá því í vor á þessu ári en þá var mikil áhersla sett á hvaða verkefni félagið vildi setja sér að sinna. Nú var komið að því að sjá hvort eitthvað út af stæði og ákveða svo næst hvenær við viljum ráðast í þessi verkefni og í hvaða röð ásamt því að ákveða hvernig við ætluðum að fara að því og hver myndu hafa ábyrgð að koma þeim til framkvæmda.




Að vinnudegi loknum var tekið á móti félagsfólki á opnu húsi svo að það gæti einnig kynnt sér nýja aðstöðu og fagnað þeim áfanga félagsins að hafa loks tryggt sér og félagsfólki sínu trygga og notalegt aðsetur til að vaxa og dafna innan. Kátt var á hjalla en auk félagsmanna litu við frambjóðendur úr röðum Miðflokksins og Sósíalistaflokks Íslands en félagið hafði boðið öllum stjórnmálaflokkum landsins að líta við, kynnast betur félagsfólki og með hvaða hætti stjórnvöld geta stórbætt stöðu bæði fósturforeldra og fósturbarna á Íslandi.



“Þetta var frábær dagur hjá okkur, bæði skemmtilegur og afkastamikill, og nú býr félagið við nokkuð góða aðgerðaráætlun næsta árið. Við vonum að félagsfólk fái að finna rækilega fyrir því á næstunni hve mikinn metnað við í stjórn félagsins höfum fyrir því að stórefla félagið og tengsl milli félagsfólks. Nú er bara að vinna fleiri sigra í baráttunni fyrir fósturforeldra með húmor og gleði að vopni” sagði Guðlaugur, formaður stjórnar í lok dagsins.


Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page