top of page

Lausn á aðgangsvanda fósturforeldra




Það gleður Félag fósturforeldra að segja frá því að Barna- og fjölskyldustofa ásamt Þjóðskrá hafa komið á verklagi sem leysa á aðgangsvanda fósturforeldra sem mörg kunna að hafa fundið fyrir undanfarið. Um þetta sendi BOFS eftirfarandi tilkynningu í janúar:


"Barna- og fjölskyldustofa ásamt Þjóðskrá hafa unnið að því statt og stöðugt að finna lausnir vegna aðgangs fósturforeldra að rafrænum þjónustugáttum fósturbarna. Það gleður okkur að tilkynna að lausn er í höfn og eru fósturforeldrar farnir að njóta góðs af.  

Þjóðskrá hefur útbúið sértækan fósturgrunn þar sem fósturbörn birtast í rafrænum þjónustugáttum undir fósturforeldrum eins og um forsjárbörn þeirra sé að ræða. Til að Þjóðskrá sé upplýst um hvaða börn eru í fóstri á hverjum tíma hjá hvaða fósturforeldrum útbjó Barna- og fjölskyldustofa vinnsluskrá sem keyrir upplýsingar yfir til Þjóðskrá í samræmi við tilkynningar um fóstur sem barnaverndarþjónustur senda til Barna- og fjölskyldustofu. Þjóðskrá hefur fundað með helstu aðilum sem að eru með rafrænar þjónustugáttir til að reyna að tryggja að lausnin gangi sem best fyrir sig en gera má ráð fyrir að ytri kerfi sem notast við forsjárskrá Þjóðskrár (sem fósturbörn munu falla undir) þurfi að venjast þessum nýja flokki í miðluninni og gæti því orðið eitthvað um byrjunarerfiðleika.

 

Barna- og fjölskyldustofa hefur sent allar upplýsingar um börn í fóstri til Þjóðskrá sem er að vinna að því að öll fósturbörn birtist undir fósturforeldrum í rafrænum þjónustugáttum.  

 

Það er von okkar að þetta gangi vel fyrir sig og auðveldi fósturforeldrum að sinna hlutverki sínu og skyldum. "


Félag fósturforeldra hefur fylgt málinu eftir um nokkurt skeið og sendi frá sér frétt um stöðu mála í nóvember. Á fundi með BOFS þann 23. janúar síðastliðinn spurðum við hver reynslan væri af þessari nýju lausn og var okkur sagt að hún færi vel úr vör og var félagið hvatt til að láta vita ef einhverjir fósturforeldrar lentu í erfiðleikum. Þvi er félagsfólk hvatt til að vera í sambandi við félagið ef það lendir í frekari erfiðleikum sem tengjast rafrænum aðgangi þeirra að gáttum sem tengjast fósturbörnum. Þetta má gera með að senda okkur tölvupóst á fostur@fostur.is vera í samskiptum við okkur á facebook síðu eða hringja í skrifstofu félagsins.

Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page