top of page

Nýtt aðsetur í Mannréttindahúsinu




Félag fósturforeldra hefur tryggt sér aðsetur í Mannréttindahúsinu, Sigtúni 42 og flutti félagið inn þann 16. september. Félagið hefur þannig eigið skrifstofurými á neðri hæð hússins ásamt því að hafa aðgang að bæði formlegum og notalegum fundarrýmum í húsinu og samkomusal.


Mannréttindahúsið sameinar fjölbreytt samtök sem berjast fyrir mannréttindum hvert á sínum forsendum í þeim tilgangi að þau geti sótt styrk og kraft í samveruna. Þannig öðlast félagið ekki bara nýtt aðsetur heldur einnig nýtt samfélag sem við erum spennt að taka þátt í.


Með nýrri aðstöðu vonast félagið til að geta boðið félagsmönnum betri þjónustu og staðið fyrir öflugra félagsstarfi. Fundarrými eru vel búin og nýtast ekki eingöngu til að styrkja fundarhald stjórnarfólks og þeirra sem ganga í trúnaðarstörf fyrir félagið heldur líka til að halda úti fræðslu og tengja félagsmenn utan af landi betur inn á viðburði. Þá er aðstaða til upptöku hlaðvarpa sem félagið hyggst nýta til að halda áfram að skapa breiðari

meðvitund um málefni fósturforeldra.


Félagsmönnum mun bjóðast að nota notalegt og hljóðeinangrað herbergi ef þörf er á fundum um viðkvæm málefni og í samkomusal hússins vonumst við til að standa fyrir fjölda viðburða á komandi misserum. En félagið hefur lengi fundið fyrir brýnni þörf að geta boðið upp á öruggt og notalegt rými fyrir kaffihúsakvöldin okkar og aðra félagsfundi.


Við þetta tilefni sagði Guðlaugur formaður félagsins “Þetta eru stór tímamót í sögu félagsin. Félagið á sér loks heimili og getur nært samfélag Fósturforeldra og skapað rými fyrir starfsfólk og sjálfboðaliða félagsins til þess að skapa verðmæti fyrir félagið og með því bæta líf fósturfjölskyldna. Við erum gífurlega spennt að fara að taka á móti félagsfólki í Mannréttindahúsinu og sýna þeim nýju aðstöðuna.”





Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page