Nýtt samkomulag félagsins við frábæra lögfræðinga

Félag fósturforeldra hefur gengið frá samkomulagi við lögfræðingana Björgvin Halldór Björnsson og Helgu Völu Helgadóttur hjá Lögfræðistofu Reykjavíkur en í sameiningu munu þau tvö vera reiðubúin að veita félaginu og félagsfólki þess krafta sína þegar á þarf að halda.
Félag fósturforeldra hefur um árabil haft lögfræðing á sínum snærum til að vísa félagsfólki á þegar í harðbakkan slær og fósturforeldrar haft þörf á aðstoð slíks. Þörf var á að leita að nýjum aðila til samstarfs í þeim efnum eftir að fyrri lögfræðingur félagsins hvarf til annarra starfa.
Við það tilefni fór félagið í leit að lögfræðing sem bæði væri heppilegur til að liðsinna félagsfólki persónulega í þeirra málum en einnig til að liðsinna félaginu sem heild við öflugari hagsmunagæslu fyrir fósturforeldra. Niðurstaða þeirrar leitar var að Björgvin og Helga myndu bæði vera til taks fyrir félagið en stjórn þótti þau bæði hafa mikla burði til að sinna því tvíþætta hlutverki vel. Félagið og félagsfólk þess hefur því víðtækari reynslu að sækja og Björgvin og Helga geta metið sín á milli hvor aðili tekur að sér einstaka mál út frá eðli þess og eigin sérþekkingu.
Björgvin og Helga komu á kaffispjall félagsins þann 14. janúar til að kynna sig og samstarfið ásmt því sem þau ræddu lagaleg álitaefni við félagsfólk. Vel var mætt en í ljós kom að mikil þörf er víða á aðstoð lögfræðinga.
Í framtíð getur félagsfólk óskað aðstoðar þessara lögfræðinga í gegnum skrifstofu félagsins, það má gera með að setja sig í samband símleiðis, gegnum tölvupóst eða með að fylla út beiðni um ráðgjöf en félagið ábyrgist að fyrsti viðtalstími sé greiddur að vissum skilyrðum uppfylltum.
Í samskiptum við stjórnsýslu hefur félagið í auknum mælum verið mætt af lögfræðingum bæði í samtölum og á fundum. Það er því ljóst að til að ná í gegn með skynsamlegar ábendingar um umbætur í fósturmálum er aukin þörf á því að njóta stuðnings löglærðra aðila sem geta aðstoðað félagið betur að kryfja lagalega umgjörð og regluverk í fósturmálum. Við teljum ærin verkefni fyrir höndum og hlökkum mikið til samstarfsins við þau Björgvin og Helgu sem við færum þakkir fyrir að koma í þetta samstarf við okkur.
Comments