Útilegan - Hólar í Hjaltadal
Hin árlega útilega félagsins var farin að Hólum í Hjaltadal helgina 28.-30.júní.
Fósturfjölskyldur hittust og áttu góðar stundir saman í yndislegu veðri á fallega tjaldstæðinu að Hólum. Þar var grillað, farið í gönguferðir, farið á Lummudaga á Sauðárkróki, farið sund á Hofsósi, spilað og leikið sér.
Í útilegunum hittast fósturbörn og fósturforeldrar frá mismunandi landshlutum, kynnast og eiga skemmtilegar stundir saman. Upplagt er fyrir fósturfjölskyldur í nágrenninu að líta við dag- eða kvöldstund og hitta ferðalangana. Fyrir okkur sem farið höfum undanfarin ár, eru útilegurnar orðnar ómissandi hluti af skipulagningu sumarsins. Til að ná til sem flestra hefur verið lögð áhersla á að halda útileguna til skiptis í hverjum landsfjórðungi. Eftir margra ára hlé á útilegum var fyrsta útilegan farin 2007 að Flúðum, en síðan höfum við flakkað um landið.
Á hringferð okkar um landið verðum við næst á Austurlandi. Ferðinni er heitið í Atlavík. Ávallt er farið síðustu helgina í júní og hvetjum við ykkur öll til að taka frá helgina 27.-29. júní 2014. Í Atlavík er frábær aðstaða og fjölbreyttir möguleikar til útivistar. Á Vísindavefnum má finna söguna af Graut-Atla, en fræðimenn greinir á um hvort víkin heiti eftir Graut-Atla eða hvort nafn hans sé dregið af örnefninu.
Hlökkum til að sjá ykkur sem flest í útilegunni næsta sumar. Hvetjum Austfirðinga sérstaklega til að mæta.
DH
Markmið með útilegum FFF Mörgum fósturbörnum finnst þau vera allt öðruvísi en önnur börn og jafnvel skammast sín fyrir að vera fósturbörn. Í útilegunni hitta þau fósturbörn sem eru bara ósköp venjulegir og skemmtilegir krakkar. Við það fara þau að sjá sjálfa sig í öðru og jákvæðara ljósi.
Útilegan er því grundvöllur til að hjálpa fósturbörnum að verða stolt og sáttari í sínu skinni.
Að auki er útilegan góður staður fyrir fósturforeldra til að kynnast öðrum fósturforeldrum. Sem svo leiðir til þess að við eigum auðveldara með að leita ráða hjá hvort öðru.