Yfirlýsing stjórnar vegna fylgdarlausra barna á flótta
- Admin
- May 28
- 2 min read
Fylgdarlaus börn á flótta eru sérlega viðkvæmur hópur sem þarf aukinn stuðning og vernd innan barnaverndarkerfisins og eru sérfræðingar í málefnum barna á flótta sammála um að best sé, ef hægt er, að koma þeim í fóstur. Því hefst iðulega leit að fjölskyldu sem reiðubúin er að taka barn í fóstur til lengri eða skemmri tíma við komu fylgdarlausra barna á flótta til landsins.
Í gegnum fósturfjölskyldur geta börnin betur öðlast tengingar við samfélagið, lært tungumálið og átt auðveldara með að hljóta menntun. Á sama tíma veitir fósturfjölskyldan skjól, öryggi, umönnun og stuðning á manneskjulegan hátt sem öll börn ættu að fá tækifæri til að alast upp við til að tryggja þeim að fá þess notið á áhyggjulausan máta að vera börn.
Fósturfjölskyldur eru veigamikill og jafnframt ómissandi burðarbiti þeirrar velferðar sem samfélagið vill tryggja þessum börnum og börnum almennt. Það eru fósturforeldrar sem standa vaktina gagnvart þessum börnum líkt og öðrum börnum sem þurfa á heimili að halda þegar öruggt heimili stendur ekki til boða.
Öll börn í fóstri eru að takast á við og vinna úr áföllum og það eru fósturforeldrar sem þekkja börn sín best. Það eru þau sem eru vakin og sofin yfir líðan barnanna, þeim áskorunum sem börnin standa frammi fyrir og þeim áhyggjum sem börnin kunna að hafa. Stjórnvöld geta ekki samtímis falið fósturforeldrum þessa miklu og mikilvægu ábyrgð en virt rödd þeirra og innsýn í mál barna sinna að vettugi. Þetta á jafnt við þegar kemur að fóstri barna fæddra á Íslandi sem annarra. Þetta á einnig jafnt við innan stjórnsýslu fósturmála og stjórnsýslu annarra málaflokka.
Félag fósturforeldra hvetur íslensk stjórnvöld til að skoða mál barna á flótta með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi en jafnframt að taka þar sérstakt tillit til radda þeirra fjölskyldna sem stjórnvöld fólu að sinna umönnun og alúð sömu barna.
Comments