top of page

Að tilheyra


Að tilheyra fjölskyldu er ekki sjálfsagt fyrir öll börn. Fósturbörn eiga oft erfitt með að trúa á varanleika fjölskyldunnar. Sérstaklega á þetta við um börn sem hafa farið í gegnum fósturrof eða hafa af einhverjum ástæðum þurft að búa á nokkrum heimilum. Þetta getur þó líka átt við um börn sem fara beint á sitt varanlega fósturheimili af upprunaheimili sínu.

Fósturbörn hafa flest upplifað að fullorðnir hafi brugðist þeim. Oft hafa þau dregið þann lærdóm af sinni lífsreynslu að fullorðnum sé ekki að treysta. Þegar þannig er komið er ekki skrýtið að barnið treysti ekki loforðum nýrra foreldra. Þá getur oft hjálpað að setja upp sjónrænar og/eða áþreifanlegar staðfestingar um að fósturbarnið tilheyri fjölskyldunni með einum eða öðrum hætti.

Ég hef reynt að gera það sýnilegt með einum og öðrum hætti að ég tel fósturbörnin mín alveg til jafns við líffræðileg börn mín. Að heimilið okkar er jafnt þeirra sem okkar hinna. Oft er líka þörf á að minna ættingja, frændur, frænkur, ömmur og afa á að fósturbarnið sé sannarlega hluti af fjölskyldunni.

Sem dæmi þá keypti ég mynd um daginn þar sem búið er að raða upp stígvélum í stærðar- og litaröð og nöfn hvers fjölskyldumeðlims eru undir þeim. Nú hangir þessi mynd á vegg í forstofunni undir yfirskriftinni “Fjölskyldan okkar.” Mér datt í hug að fleiri gætu verið að leita eftir leiðum til að sýna barninu sínu að það er partur af fjölskyldunni. Hér að neðan eru hugmyndir að ýmsum leiðum til að gera barninu og öðrum sýnilegt að það tilheyri fjölskyldunni: Á www.etsy.com er hægt að finna ýmsa listamenn sem útbúa falleg skilti eða muni sem sýna fjölskylduna á skemmtilegan og myndrænan hátt. NordicDesignHouse er ein af þessum búðum sem selja á Etsy. Þar er hægt að útbúa fjölskylduna með nöfnum og mynd af stígvélum hvers og eins fjölskyldumeðlims. Einnig er hægt að gera það með sandölum eða skyrtum á þvotta snúrunni. Hayley sem er hönnuður þar og ég var í sambandi við með að útbúa svona mynd fyrir mig vill glöð gefa íslenskum fósturfjölskyldum 10% afslátt af slíkum myndum hjá sér og gaf okkur leyniorðið FOSTERPARENTS10 sem við getum sett inn til að virkja afsláttinn. Meðfylgjandi mynd er fjölskyldumyndin mín, ég er bara búin að má út nöfnin á þessari mynd, enda óþarfi að þau fylgi með á svona opinberum vettvangi.

ThatsSewPersonal er líka hægt að finna á Etsy. Sú saumar litlar fingrabrúður sérhannaðar eftir fjölskyldu hvers og eins. Hversu sætt er það fyrir yngstu börnin okkar að leika leikrit með fingrabrúðum sem eru hönnuð eftir fjölskyldunni? Hún útbýr fjölskyldur í öllum húðlitum, með alla hárliti og augnliti sem hægt er að láta sér detta í hug. Hún er líka að selja allskyns annarskonar hluti sem hún saumar eftir pöntunum t.d. jólaskraut með ljósmyndum af fjölskyldunni í, púða fyrir ömmu eða afa með nöfnum allra í fjölskyldunni og fleira.

SammyAndChrissy eru líka á Etsy. Þau gera nokkrar útgáfur af fjölskyldumyndum t.d. Scrabble borð sem felur í sér öll nöfn fjölskyldunnar, ættartré þar sem öll laufin á trénu eru með nafni fjölskyldumeðlims án þess að sýna hvernig hver er blóðtengdur og fleira. CornerCroft er með gullfallegar vatnslitamyndir með allskyns dýrum sem mynda fjölskyldurnar. Hún er líka á Etsy. Hún sagði mér frá því að hún væri núna að vinna í myndaseríu sem er sérstaklega hugsuð útfrá fósturfjölskyldum og ættleiðingar-fjölskyldum. Það verður spennandi að sjá. Þetta er bara lítið brot af hugmyndum sem hægt er að nota til að gera það áþreifanlegt og sýnilegt að barnið tilheyri fjölskyldunni. Svo litlir og einfaldir hlutir oft sem okkur bara dettur ekki í hug að skipti máli - en gera það svo sannarlega þegar varanleiki fjölskyldunnar er fjarlægur draumur.

Nýlegar fréttir
bottom of page