top of page

Frábært ár í máli og myndum

  • Writer: Admin
    Admin
  • 6 days ago
  • 4 min read

Brátt er að baki sögulegt ár hjá félaginu, því er vert að líta aftur um öxl og rifja upp allt það sem gekk á hjá félaginu árið 2025.


Meirihluti þáverandi stjórnar félagsins ásamt forseta Íslands á fyrsta málþingi félagsins sem haldið var á árinu
Meirihluti þáverandi stjórnar félagsins ásamt forseta Íslands á fyrsta málþingi félagsins sem haldið var á árinu

Fjöldi skemmtilegra viðburða á árinu

Félagið stóð fyrir 26 viðburðum fyrir félagsfólk og aðra á árinu. Í mars stóð félagið fyrir sínu fyrsta málþingi á Hilton undir yfirskriftinni 'Er farsæld tryggð í fósturmálum' en þangað mættu 110 manns, ýmist fósturforeldrar, ráðafólk, fagfólk frá helstu stofnunum og aðrir hagaðilar.



Fósturfjölskylduhelgar í Vatnaskógi fóru fram í maí og október þessa árs þar sem boðið var upp á skemmtun og dýrmæta samveru en samanlagt tóku um 160 manns eða um 35 fjölskyldur þátt í þeim. Félagið var svo með tvö bingó á árinu þar sem það bauð félagsfólki og fjölskyldum þeirra. Fyrra bingóið var um páskana þar sem hlé var tekið á leik til að leita páskaeggja í nágrenni Mannréttindahússins en hið síðara fór fram í aðventu jólanna en þangað vitjuðu jólasveinar þáttakenda í miðjum leik.




Við héldum þrjú ný námskeið á árinu í samstarfi við fagaðila. Annars vegar fóru fram tvö námskeið um fjöláfalla og tengslavanda barna sem skipt var upp eftir aldri barna í stjórn Jóhönnu Jóhannesdóttur félagsráðgjafa og fjölskyldufræðings sem bauð hvorum hópnum fyrir sig svo í hóphandleiðslu að námskeiði loknu. Hins vegar fór fram, í október, fræðsla um atferlisþjálfun og námskeið í hönnun umbunar- og táknskerfis í samstarfi við Ölmu Dögg Guðmundsdóttur þroskaþjálfa og klínískan atferlisfræðing. Skattafræðsla félagsins var svo á sínum stað í mars og var fjölmennasti fjarviðburður félagsins en rúmlega 40 manns mættu til að hlíða á og leita ráða sérfræðings félagsins í skattamálum.



Kaffispjöllin voru svo á sínum stað fyrsta þriðjudag hvers mánaðar nema þegar þau fóru í sumarfrí. Á þeim kynntum við nýja lögfræðinga til leiks, fengum kynningu á rannsókn á fósturrofi, á nytsamlegri samskiptabók en umfram allt áttum við góð samtöl og veittum þeim stuðning sem þurftu. Nýjir stuðningshópar hittust líka undir merkjum félagsins á árinu, í fimm skipti á Akureyri og einu sinni á Selfossi.



Fólkið í félaginu

Félagið óx töluvert á árinu en við bættust 59 nýir félagar sem ekki höfðu verið í félaginu árið áður. Í lok árs taldi félagið 370 félaga sem tilheyrðu 260 ólíkum fjölskyldum. Félagar voru margir virkir í starfinu á árinu enda mörg tækifæri til þess og mikið um að vera líkt og rakið hefur verið.


Margir leituðu til félagsins á árinu en auk smærri mála veitti félagið stuðning, ráðgjöf og aðstoð í meira en 50 stærri málum sem náðu til flestra anga fósturforeldrahlutverksins. Félagið aðstoðaði fólk í samskiptum við barnaverndarþjónustur, veitti ráðgjöf um samningsmál og umgengni, aðstoðaði við margvísleg réttindamál, útvegaði félagsfólki lögfræðingum þar sem þurfti á að halda auk annarskonar aðstoðar.


Málefnavinna á árinu

Félagið átti fjölda funda með hagaðilum á árinu en þar má nefna barnaverndarþjónustur, BOFS, GEV og Mennta- og barnamálaráðuneytið.


Nokkrir fundir voru með fósturteymi BOFS á árinu þar sem góðu samstarfi var viðhaldið. Félag fósturforeldra átti aðkomu að námskeiðum fyrir nýja fósturforeldra og sömuleiðis var BOFS með gott innlegg á málþingi félagsins. Félagið fylgdi áfram eftir að lausn yrði á aðgangsvanda fósturforeldra að upplýsingum í rafrænum gáttum en BOFS lauk málinu í upphafi árs í samstarfi við Þjóðskrá með nýjum fósturgrunni sem stofnaninar munnu viðhalda í samvinnu.


Félagið átti tvo góða fundi með GEV á árinu þar sem áhersla var á réttarstöðu fósturforeldra gagnvart stofnuninni auk endurnýjun fósturleyfa. Að síðari fundi loknum ákvað GEV, í kjölfar ábendinga frá félaginu, að gera breytingar á vinnslu umsókna um endurnýjun fósturleyfa og einfalda könnun á heilsufari fósturforeldara. Félagið heldur svo áfram að þrýsta á fyrir mikilvægum umbótum er varða fósturforeldra sem telja sig knúna að fara í gegnum ábendingar og kvörtunar ferli hjá stofnuninni.


Félagið átti í auknu samstarfi við Háskólann á árinu en í apríl fór fram fundur við félagsráðgjafadeild um fyrirætlanir um rannsóknir á fósturmálum og hvernig eiga mætti í samstarfi til að tryggja góðan framgang þeirra.


Stjórn félagsins sendi frá sér yfirlýsingu á árinu vegna fylgdarlausra barna á flótta til að minna á mikilvægi fósturforeldra til að tryggja velferð þess hóps. Því væri mikilvægt að íslensk stjórnvöld skoðuðu mál barna á flótta með mannúð og mannréttindi að leiðarljósi en tæku jafnframt sérstakt tillit til radda þeirra fjölskyldna sem stjórnvöld fólu að sinna umönnun og alúð sömu barna.


Félagið minnti á að enn hafa stjórnvöld ekki staðið við skuldbindingar sínar er varðar að kanna afdrif uppkominna fósturbarna með fullnægjandi hætti. Framkvæmdastjóri og formaður félagsins birtu grein sem birt var á vísi um mikilvægi slírka rannsókna, núverandi vandann og lausnina við honum. Í framhaldi fór formaður félagsins í viðtal hjá Samfélaginu á RÚV og gjaldkeri félagsins var svo til viðtals þegar Þetta helst fjallaði um málið. Formaður og framkvæmdastjóri fóru svo á fund formanns mennta- og allsherjarnefndar um málið og ræddu lausnir innan stjórnsýslunnar.


Félagið vann einnig í fleiri málum sem betur verður sagt frá síðar.


Spennandi ár framundan

Félagið heldur áfram á sömu braut á komandi ári ásamt því að vera með ný spennandi verkefni í undirbúningi. Við þökkum samfylgdina á árinu og óskum félagsfólki okkar farsældar á komandi ári en munum jafnframt vinna að henni eftir sem áður.



 
 
 

Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page