Hrollvekjandi skemmtun í Vatnaskógi
- Admin
- Oct 29
- 2 min read

Fósturfjölskylduhelgi Félags fósturforeldra fór fram i í Vatnaskógi um liðna helgi þann 24.-26. október. Þar voru saman komnar 17 fjölskyldur eða um 80 manns, 50 börn og 30 fullorðin. Nálægð við hrekkjavökuna var hagnýtt til að gefa helginni hrollvekjandi og skemmtilegan brag og voru fjölskyldur hvattar til þess að koma með búninga meðferðis. Stuttu eftir komu hópsins á svæðið voru allar fjölskyldur komnar út í skóg í vasaljósaleit af draugum en sameinuðust svo við varðeld þar sem starfsfólk Vatnaskógs stýrði samsöng og kvöldvöku.

Á laugardeginum kíkti hinn sívinsæli Blaðrari á hópinn en að þessu sinni var það undir fósturfjölskyldunum komið að snúa upp á, hnýta og móta blöðrurnar í nytja- og skrautmuni undir dyggri handleiðslu hans. Starfsfólks Vatnaskógs sá svo um skemmtilega dagskrá og hrekkjavökuföndur fyrir börnin meðan fósturforeldrarnir áttu stund saman í næði til að sækja styrk hvert í annað og ræða saman. Í síðdeginu litu svo Spilavinir á hópinn og hristi hópinn saman með að tefla fólki fram á móti hvort öðru og saman í hinum ýmsu spilum. Viðstaddir unglingar fengu síðan stund með starfsfólki Vatnaskógs þar sem þeim gafst færi að kynnast og ræða sín á milli í næði frá yngri systkinum og foreldrum. Hápunktur dagsins var svo auðvitað rosalegt grímuball þar sem ýmsum skrautlegum persónum úr ýmsum áttum brá fyrir.
Fósturfjölskylduhelgar í Vatnaskógi er einn mikilvægasti liður í starfi félagsins. Að gefa fósturfjölskyldum færi á langvarandi samveru með þessum hætti þar sem færi gefst að skemmta sér saman, kynnast betur, efla tengslin og bjóða tækifæri að upplifa með skýrum hætti að fjölskyldurnar tilheyri stærra samfélagi er dýrmætara en orð fá lýst. Félagið er því afskaplega þakklát Vatnaskógi og KFUM/K að bjóða okkur velkominn og fyrir að sinna fósturfjölskyldunum sem taka þátt alltaf jafn vel og af einskærri gleði.
Á sunnudeginum var tregi í hópnum að helginni væri lokið en að sama skapi spenna og þá var bara ein spurning á allra vörum. "Hvenær verður næsta fósturfjölskylduhelgi í Vatnaskógi?" Við þökkum þátttakendum helgarinnar og hlökkum til að hittast aftur í Vatnaskógi.






Comments