top of page

Samráð félagsins og GEV skilar einfaldara endurnýjunarferli

  • Writer: Admin
    Admin
  • Sep 17
  • 3 min read
ree

Í upphafi mánaðar fór fram annar samráðsfundur Félags fósturforeldra og Gæða- og eftirlitsstofnunnar velferðarmála á þessu ári. Á fundinn mættu framkvæmdastjóri og fulltrúi stjórnar fyrir hönd félagsins og ræddu við fagstjóra fagteymis barnaverndarþjónustu, sérfræðing úr sama fagteymi og yfirlögfræðing stofnunarinnar.


Á fundinum var farið yfir ýmis mál m.a. stöðu fósturforeldra gagnvart GEV og aðild þeirra að málum sem þau tilkynntu GEV, hver gæti sent ábendingar til GEV ef barnaverndarþjónusta starfaði ekki í samkvæmt regluverki og síðast en ekki síst var rætt um endurnýjanir leyfa til að taka börn í fóstur. Fulltrúum félagsins þótti fundurinn bæði jákvæður og gagnlegur en á honum var rætt opinskátt um málin og var það tilfinning þeirra að fulltrúar GEV veittu ábendingum virka áheyrn og tækju þeim vel.


Mikil og góð umræða skapaðist um endurnýjanir leyfa, hvað hefði farið á mis í upplýsingagjöf hjá hinu opinbera gagnvart fósturforeldra og hvað ylli að mörgum fósturforeldrum þætti ferlið enn nokkuð óljóst. Sérstaklega var þar rætt um hvernig félaginu þætti að skýra þyrfti betur hvaða upplýsinga væri aflað í ferlinu, hvernig væri unnið úr þeim og hvernig GEV byggði ákvarðanir sínar um að samþykkja eða hafna endurnýjunum. Þá þyrfti sérstaklega að skýra betur þann andmælarétt sem fósturforeldrar hefðu ef slæmrar umsagnar væri aflað í ferlinu.


Sérstök umræða skapaðist svo um skyldu þess að skila inn læknisvottorði með umsókn um endurnýjun leyfis. Samkvæmt vitnisburði félagsmanna hefur það að afla læknisvottorðs við endurnýjun reynst stærsta hindrunin. Löng bið sé eftir tímabókunum hjá læknum og fáir fengið sérstaka flýtimeðferð þrátt fyrir þörfina. Þá hafi fósturforeldrar fengið að heyra að læknum þætti óskýrt hvað þeim bæri að votta og á hvaða forsendum þeim bæri að votta það. Enda væri ekki skýr viðmið að finna frá stofnuninni enda sögðu fulltrúar stofnunarinnar að afar ólíkar upplýsingar væri að finna í þeim vottorðum sem stofnuninni hefðu borist til þessa. Félagið kom þeim sjónarmiðum á framfæri að úttekt væri þegar gerð á heilsu fósturforeldra við fyrstu útgáfu leyfis þeirra og því væri ekki augljóst hví það væri verið að fara fram á að fósturforeldrar legðu á sig það átak að verða sér aftur úti um slíkt vottorð né heldur hvort stofnuninni væri tækt að taka sömu heilsufarsupplýsingar aftur til viðmiðs við ákvörðun um útgáfu leyfis ef engar breytingar hefðu orðið á heilsufari fólks.


Nokkru eftir að þessi fíni fundur fór fram barst félaginu svo tilkynning frá GEV að eftir að hafa íhugað það sem var rætt hefði stofnunin tekið þá ákvörðun að fella niður skyldu um að skila inn læknisvottorðum við endurnýjun fósturleyfa. Þess í stað muni stofnunin bæta því við upplýsingabeiðni til barnaverndarþjónustu og óska þar eftir upplýsingum um hvort einhverjar breytingar hafi orðið á heilsufari sem talið sé að geti haft áhrif á stöðu umsækjanda. Þó þessi breyting hafi tekið gildi gæti það tekið einhvern tíma að breyta upplýsingasíðu um ferlið á heimasíðu GEV og rafrænu eyðublaði og geta umsækjendur skilað tómu skjali þar sem óskað sé eftir læknisvottorði til að ljúka umsókn á netinu. Félagið er ánægt að finna fyrir því að GEV sé alvara um virkt samráð við Félag fósturforeldra. Með þessari breytingu sýnir stofnunin að hún sé viljug að hlusta á ábendingar um hvað megi betrumbæta til tryggja betur gæði í fósturmálum. Félagið treystir að þessar breytingar auðveldi fósturforeldrum fyrir að endurnýja leyfi sín og að fleiri fósturforeldrar láti nú af því verða.

 
 
 

Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page