Starfsárið sett af stað með stórgóðu spjalli
- Admin
- 3 days ago
- 2 min read
Fyrsti félagsviðburður nýs starfsárs var haldinn þriðjudaginn 2. september þegar hið mánaðarlega kaffispjall félagsins kom úr sumarfríi. Viðburðurinn er fastur mánaðarlegur liður í starfi félagsins og fer fram fyrsta þriðjudag hvers mánaðar í Mannréttindahúsinu. Viðburðirnir eru vettvangur fyrir fósturforeldra til að hittast, ræða saman, sækja og/eða deila reynslu og er frábær vettvangur fyrir öll til að sækja stuðning frá hinu stærra samfélagi fósturforeldra. Að þessu sinni fengum var kaffispjallið hafið á kynningu á samskiptadagbókinni 'Okkar á milli' sem er hönnuð til að efla tengsl milli barns og foreldris í gegnum spurningar og skrif. Bókin inniheldur yfir 60 fjölbreyttar spurningar - allt frá fyndnum ”hvort myndir þú frekar?” yfir í dýpri umræðuefni sem krefjast ígrundunar. Foreldri og barn svara spurningunum til skiptis og er hugmyndin sú að hún gangi á milli þeirra eins og póstsending. Bókinni er ætlað að opna á nýja samskiptaleið og skapa dýrmæt augnablik. Bókin hentar öllum fjölskyldugerðum og öllum kynjum.

Kynningin var í boði höfunda bókarinnar, þeirra Sigrúnar Evu Grétarsdóttur sem er fósturforeldri og Aldísar Önnu Sigurjónsdóttur en báðar eru þær náms- og starfsráðgjafar í verkmenntaskóla Austurlands þaðan sem þær fluttu kynninguna í gegnum fjarfundarbúnað. Auk þeirra tóku svo 7 heimili fósturforeldra þátt í gegnum fjarfund.
Að kynningu lokinni var opnað á umræður þar sem ýmis mál voru rædd. Þar var til umræðu upplýsingaóreiða þegar kæmi að fæðingarorlofsrétt fósturforeldra, vanda ýmissa stofnanna að sækja réttar upplýsingar til Þjóðskrár þrátt fyrir nýjan fósturgrunn, hindranir við nafnabreytingar, fyrirætlanir félagsins um að boða til samtalsfundar um ættingjafóstur og fóstur barna á flótta ásamt mörgu öðru.

Að kaffispjallinu loknu er ljóst að eftir sem áður eru ærin verkefni fyrir höndum félagsins. Félagið sendir öllum þeim sem mættu á kaffispjallið þakkir fyrir kvöldið, við vonumst til að sjá þau aftur ásamt enn fleira félagsfólki á komandi mánuðum.
Comments