top of page

Um bætt aðgengi fósturforeldra í rafrænum kerfum

Líkt og fósturforeldrar þekkja því miður of vel hefur verið vandi fyrir fósturforeldra að hafa aðgang að upplýsingum um fósturbörn í rafrænum kerfum. Sá vandi hefur verið viðvarandi í tvö ár og ágerst á þeim tíma.


Í júlí á þessu ári rataði málið í fréttir en formaður félagsins fór þá í kvöldfréttir og kom sjónarmiðum félagsins og fósturforeldra á framfæri um að staðan væri óviðunandi. Í kjölfar þess lofaði félagið að það myndi halda áfram að þrýsta á um breytingar hjá hinu opinbera þar til gripið yrði til aðgerða!


Í ágúst var félagið í samskiptum við félagsmann sem hafði staðið í ötulli baráttu við kerfið um málið og þegar sent erindi til umboðsmanns Alþingis til að þrýsta á fyrir málinu. Meðan beðið var eftir niðurstöðu þess fórum við í við í leit að betri svörum frá opinberum aðilum um stöðu mála og ríkjandi áætlun um lausn vandans og var byrjað hjá Þjóðskrá.


Hjá Þjóðskrá var félagið sett í samband við starfsmann stofnunarinnar sem fór fyrir því að finna lausn á vandanum fyrir þeirra hönd. Þar fékkst staðfest að óformlegur samstarfshópur hinna ýmsu stofnanna væri búinn að undirbúa lausn frá árinu 2023. Hafði hópurinn skroppið nokkuð saman í samræmi við hvaða stofnanir þyrftu að standa að lausninni en það eru Þjóðskrá, Barna- og fjölskyldustofa og Innviðaráðuneytið.


Þjóðskrá sagði að tæknilega væri lausn vandans ekki flókin, hægt væri að skrá allskonar vensl í Þjóðskrá á milli fólks og þannig mætti vel skilgreina tengsl milli fósturforeldra og fósturbarna í skránni en síðan væri hægt að veita aðgang að upplýsingum í rafrænum kerfum út frá þeirri venslaskráningu. Helsta áskorunin við þessa lausn er að Þjóðskrá er einungis umsjónarmaður þeirrar skráningar og getur einungis skráð slík vensl ef henni berast upplýsingar um hvaða börn séu í fóstri hjá hverjum. Til þess skorti miðlæga skráningu fósturforeldra og fósturbarna og að koma því fyrir innan stjórnsýslunnar að einhver væri ábyrgðaraðili þeirrar miðlægu skráningar.


Í október átti félagið fund við Barna- og fjölskyldustofu (BOFS) sem ríkjandi áætlun gerði ráð fyrir að myndi sjá um miðlæga skráningu fósturforeldra og fósturbarna og miðla breytingum til Þjóðskrár. Á þeim tíma hafði Barna- og fjölskyldustofa unnið með lögfræðingi Innviðaráðuneytis og komið sér upp áætlun um hvernig yrði staðið að söfnun þessara upplýsinga frá barnaverndarþjónustum sveitarfélaganna og miðlun þeirra áfram til Þjóðskrár. Hafði erindi vegna þess verið sent til Persónuverndar og var beðið eftir áliti um hvort  sú áætlun stæðist Persónuverndarlög.


Í nóvember komst félagið loks í samband við lögmann Innviðaráðuneytisins. Hann tjáði okkur að álit Persónuverndar lægi þá fyrir um að áætlanir um öflun og miðlun upplýsinga stæðust lög og því væri næsta skref að hrinda áætlunum í framkvæmd. Þjóðskrá og BOFS ættu í lok október að hafa átt fund um hvernig samstarfi yrði háttað um það. Félaginu var líka tjáð að málið væri tekið alvarlega en þar að auki hefði Umboðsmaður barna i beint því til stjórnvalda í lok júlí að grípa tafarlaust til aðgerða til að finna fullnægjandi lausn og hefði hálfsmánaðarlega farið fram á að vita hvaða framfarir hefðu orðið í að finna lausn á málum.


BOFS hefur síðan staðfest að hafin sé vinna að því að koma upp miðlægri skráningu og öflun upplýsinga frá barnaverndarþjónustum sömuleiðis. Því hlýtur að mega ætla að stutt sé í áþreifanlega lausn á stöðunni.


Af eftirfylgd málsins þykir félaginu ljóst að öllum viðkomandi innan stjórnsýslunar sammælist um mikilvægi þess að leysa þennan vanda til frambúðar og þá komu allir aðilar því á framfæri að þeim þætti miður að þessi staða hafi yfirhöfuð komið upp. Engu að síður er mikilvægt að halda á lofti hvert vandamálið á rætur sínar að rekja.


Fósturkerfið á Íslandi er bútasaumur fjölda ólíkra eininga innan sveitarfélaga og ríkisins, fyrir vikið eru upplýsingar og ábyrgð alltof dreifðar. Þótt birtingamynd vandamála sem því fylgja geti verið allskonar er niðurstaðan iðulega sú sama, að þau bitni helst á fósturforeldrum og geri þeim erfiðara fyrir að sinna hlutverki sínu og sói orku þeirra og þreki að óþörfu. Enn er úrbóta þörf til að sigrast á þessum vandamálum og því mikilvægt að stjórnvöld og stjórnsýslan í heild gefi því vægi sem fósturforeldrar og félagið benda á og bregðist við því fremur en að leyfa þeim vandamálum að ágerast áður en það er gert.


Við fögnum að lausn sé í sjónmáli, félaginu hefur verið lofað frétta af framgangi hennar og við munum áfram miðla þeim fréttum til félagsfólks.


Comments


Nýlegar fréttir
bottom of page